Þúsaldarljóð, texti: Sveinbjörn I. Balvinsson
lag: Tryggvi M. Baldvinsson
Þúsaldarljóð
Jörð
Ég fæddist í landi sem lifir
og lætur mig muna eftir sér.
Víðernin vaka mér yfir
og vasklegur fjallanna her.
Ég leik mér í grasinu græna
sem gælir við fótsporin mín,
sest þreyttur á þúfuna væna.
Hún þylur mér leyndarmál sín.
Þótt ég hafi fisléttar fætur
og ferðist um heimshornin víð
á hjarta mitt rammgerðar rætur
í regnþungum mó undir hlíð.
Sem logi í innjarðar óni
er allt niðri í moldinni geymt,
sem reynt hefur fólk hér á Fróni
því fundist, það vonað og dreymt.
Úr jarðvegi djúpum og dökkum,
dýrindis blómstur og strá
blasa við brosleitum krökkum
sem bera heim vendina smá.
Vatn
Vaggar bára vænum bát,
vakir már á skeri.
Ufsi frár með allri gát,
//:uggaárum reri://
Vatn á kolli, vatn í skó,
vatn í bolla og glasi.
Vatn í polli, vatn í sjó,
vatn á skollagrasi.
Dropar renna rúðum á,
regn á enni bylur.
Hvað veiðimenn í vöðlum þrá,
er //:víður flennihylur://
Vatn á kolli, vatn í skó,
vatn í bolla og glasi.
Vatn í polli, vatn í sjó,
vatn á skollagrasi
Loft
Ef langar mig burt út í buskann
að berast, og stundum er það,
ég teygi mig lengst upp í loftið
og læt sem ég fljúgi af stað.
Handleggir verða að vængjum
í vetvangi sprettur mér stél.
og loks er ég augunum loka
ég lyftist af hnattarins skel.
Vindurinn vængina fyllir
og veitir mér stórbrotna sýn
yfir landið mitt lúið og veðrað
sem ljómar þó ennþá og skín.
Því björgin og víðernin bláu
bera þess ómyrkan vott
að aldanna veður og vindar
veittu því uppeldið gott.
Eldur
Eldurinn logar
langt niðri í jörðu
leitar að opinni slóð.
Æðir um ganga,
grefur sér leiðir,
glóandi, ólgandi blóð.
Spýtist úr gígum
með geigvænu öskri,
grásvörtum bólstrum af reyk.
Leiftrandi steinar,
logandi hraunið,
lifandi kraftur að leik.
En handann við sortann,
háskann og mökkinn,
sem heldimmur leggst yfir ból,
dansar á himni,
dátt yfir landi,
dirfskunnar leiftrandi sól.